02.01.2025
Þá eru staðfestar áhorfstölur komnar í hús fyrir heildarárið 2024 og ljóst að áhorf á Skjá 1 er að aukast með tilkomu nýrra aðgengismiðla í formi „appa“ og því ljóst að við munum verulega bæta í á þessu ári, en niðurstaðan er þessi:
Janúar 6.841
Febrúar 4.543
Mars 8.578
April 13.583
Maí 15.980
Júní 16.924
Júlí 24.736
Ágúst 26.126
September 27.358
Okt 45.708
Nov 45.932
Desember 61.422
Heildar áhorf árið 2024 er: 297.731 staðfest áhorf!
Takk fyrir að horfa!
21.12.2024
Jólagjöf Lilju Alfreðsdóttur til íslenskra barna.
Eins og ég kunngerði hér á þessu svæði sótti ég um f.h. Skjás 1 um auglýstan styrk vegna kostnaðar sem hlotist hefur vegna íslensks texta og talsetningar fyrir börn allt að 12 ára aldri. Til skilgreiningar skal það látið fylgja með að hér er um að ræða styrk vegna endurgreiðslu á áður greiddum kostnaði sem fellur til við kostun á textun og talsetningu.
Í dag hefur borist bréf menntamálaráðuneytisins þar sem fram kemur að opin og endurgjaldslaus fjölmiðill er ekki styrkhæfur, heldur einungis áskriftarmiðill.
Skjár 1 vildi sannarlega láta reyna á það sem opinn og endurgjaldslaus fjölmiðill sem hefur á undanförnu ári sýnt talsett og textað barnaefni á íslensku og kostað til þess verulegum fjármunum, en telst að mati Ráðuneytis Lilju Alfreðsdóttur ekki styrkhæfur og íslenskum börnum því verulega mismunað eftir því hvort foreldrar þeirra kjósa að greiða áskriftargjald fyrir börn sín eða ekki, en með þessu er verið að verðlauna þá sem hafa tekjur af áskriftarsölu á kostnað þeirra sem engar tekjur hafa og því klárlega algjört misræmi í miðlun til barna látið viðgangast.
Krafa er gerð um að umsækjandi sé skráður einkarekinn fjölmiðill hjá Fjölmiðlanefnd sem Skjár 1 uppfyllir.
Skjár 1 mun halda áfram að bjóða börnum íslenskað talsett og textað sjónvarpsefni þrátt fyrir ákvörðun Menntamálaráðherra sem hefur með þessu endað sinn ráðherraferil í dag með því að bíta hausinn af skömminni, þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar um verndun íslenskrar tungu og að standa vörð um íslenska tungumálið í samkeppni við erlendar streymisveitur.
„5. gr. Skilyrði fyrir styrkveitingu.
Styrkir eru veittir til einkarekinna fjölmiðla sem eru skráðir eða hafa leyfi til hljóð- og myndmiðlunar í skilningi IV. kafla laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Styrkir eru veittir til talsetningar og/eða textunar á barnaefni á íslensku sem er til sýningar á innlendum áskriftarfjölmiðli. Miðað er við að efnið hafi verið frumsýnt síðastliðna 12 mánuði og er þar miðað við dagsetningu umsóknarfrests“.
Skjár 1 hefði aldrei sótt um nema stöðin teldi sig uppfylla þau slilyrði sem sett eru fram hér að ofan sem einkarekinn fjölmiðill, skráður með leyfi Fjölmiðlanefndar.
Því verður málið því áframsent til Umboðsmanns Alþingis til endanlegrar úrlausnar, enda í raun ótækt að styrkir Ráðuneyta séu klæðskerasniðnir að þörfum eins umsækjenda á kostnað hinna sem starfa á nákvæmlega sama afþreyingarmarkaði, enda þarf ávallt að gæta þess að hafið sé yfir allan vafa að hugsanleg hagsmunapólitík og spilling ráði för.
Ofangreint tilkynnist hér með,
f.h. íslenska Sjónvarpsfélagsins
Hólmgeir Baldursson
——————————————————————————————————————————————————————————————————
13.12.2024:
Vinsamlegast athugið eftirfarandi:
Okkur er skylt samkvæmt lögum að birta neðangreint opinberlega á heimasvæði Skjás 1 og hér á þjónustusvæði stöðvarinnar:
Verklagsreglur: Skjár 1 byggir aldursmat sitt á þremur fyrirliggjandi upplýsingum um aldursgreiningu kvikmynda. Ábyrgðaraðili Skjás 1 er Hólmgeir Baldursson. Erindi til stöðvarinnar eru um tölvupóstfangið: skjar1@skjar1.is
Skjár 1 tilgreinir aldursgreiningu við hverja sýningu sem kemur fram í útsendingu hverju sinni. Niðurstöður um mat á kvikmyndum er að finna á m.a.
www.imbd.com & heimasvæði Kijkwijzer.
Í fyrsta lagi er stuðst við aldursgreiningu af þáverandi Kvikmyndaeftirliti/Kvikmyndaskoðun Ríkisins, enda telst umrædd skoðun þess tíma í samræmi við síðari lög og reglugerðir um skoðun og aldursgreiningu kvikmynda samkvæmt 2. mgr. 2. gr. enda staðfest að skoðun hafi farið fram.
Þessar upplýsingar er að finna við birtingu á auglýstum sýningartímum í dagblöðum þess tíma, enda lagaleg skylda á þeim tíma að færa allt kvikmyndaefni hvort sem það var sýnt í kvikmyndahúsum eða útgefið á vhs myndböndum & dvd myndiskum, þar sem merkingar eftirlitsaðila koma fram á bakhlið kápu.
Í öðru lagi er stuðst við IMDB sem heldur utan um skráningar sömu aðila og hér að ofan, auk annarra alþjóðlegra eftirlitsaðila, en í einhverjum tilfellum hefur uppfærð skráning átt sér stað.
Í þriðja lagi er það skoðað hvort kvikmyndin hafi fengið skoðun hjá NICAM (Netherlands Institute for the Classification of Audiovisual Media) frá Hollandi, sem er eitt viðurkenndasta skoðunarkerfi heims og er m.a. aðilinn bak við hið viðurkennda PEGI kerfi sem að tölvuleikjaframleiðendur hafa komið sér saman um að nota.
Þegar ofangreindar upplýsingar liggja allar fyrir er það svo mat ábyrgðaraðilans (Skjás 1) að endanlega aldursgreina hverja einstaka kvikmynd byggða á mati allra þriggja aðila sem að ofan greinir. Í einhverjum tilfellum getur verið um ósamræmi í skráningu um að ræða og gildir þá ALFARIÐ íslensk skráning, hafi myndin á einhverju stigi málsins hlotið skoðun hér á landi.
Ofangreint er birt hér með til upplýsinga fyrir forráðamenn barna og ungmenna samkvæmt lögum um skoðun og aldursgreiningu kvikmynda hér á landi.
——————————————————————————————————————————————————————————————————
22. Nóvember:
Frá og með næstu viku verður allt myndefni aldursgreint sem tekið er til sýningar samkvæmt samræmdum evrópskum staðli um skoðun og aldursgreiningu kvikmynda og kvikmyndir sem ekki eru aldursgreindar við hæfi barna verða því ekki teknar á dagskrá fyrr en eftir kl: 22:00 á föstudags & laugardagskvöldum og kl: 21:00 önnur kvöld framvegis þar sem okkur hafa borist ofangreind tilmæli frá Fjölmiðlanefnd.
Eðli málsins samkvæmt er þetta bundið í lög um starfsemi fjölmiðla eins og gilda um sjónvarpsstöðvar á borð við Skjá 1 og okkur því bæði ljúft og skylt að hlýta þeim lögum sem gilda um starfsemina. Því förum við á fullt næstu daga við að samræma okkar fyrri aldursgreiningar við samræmingarskrá Evrópuríkja og væntum þess að allt efni, án undantekninga verið klárt strax á mánudag.
Við vonum að áhorfendur okkar sýni þessu skilning.
Áhorfendur okkar mega því búast við breyttu útliti á útsendum kvikmyndum hjá okkur á næstunni með aldursgreiningum og hvetjum við foreldra og forráðamenn barna og ungmenna að virða aldurstakmörkin.
Takk fyrir að horfa!
—————————————————————————————————————————————————————————————————
14. Nóvember:
Í dag sótti Skjár 1 um hlutfallslegan styrk hjá Fjölmiðlanefnd vegna kostnaðar við textun á efni fyrir börn yngri en 12 ára.
11. Október:
Íslenska Sjónvarpsfélagið sótti nýverið um styrk hjá Fjárlaganefnd fyrir næsta ár og geta áhugasamir kynnt sér erindið á þessum hlekk:
9. Október:
Það er okkur einstök ánægja að tilkynna að við höfum veitt heimild til miðlunar sjónvarpsmerkis okkar til handa Landspítala Háskólasjúkrahúsi á öll viðtæki á innra dreifikerfi Spítalanna og því ánægjulegt að geta stuðlað að því að veita sjúklingum áhorf á fastar kvikmyndasýningar, enda getur tíminn á sjúkrahúsi liðið hægt stundum og því gott að geta gleymt sér yfir bíómynd í skamma stund.
Í morgun barst okkur formlegt svar frá tæknideild sem hljóðar þannig:
„Að taka inn nýja stöð inn á LSH hefur töluverðan kostnað í för með sér og kostar töluverða vinnu. Ég hef ekki gert ráð fyrir að setja þessa stöð inn á næstunni en það væri mögulegt að koma henni að næst þegar við þurfum að uppfæra stöðvalistann hjá okkur“.
Vonandi er þá ekki langt að bíða þess að stöðvalistinn verði uppfærður.
—————————————————————————————————————————————-
Dreifing er hafin á sjónvarpsmerki okkar í samstarfi við Skjámynd ehf sem rekur upplýsinga og dreifingarkerfi fyrir hótel og eru fyrstu hótelin nú tengd og bjóðum við nýja áhorfendur KEA Hótela velkomna í frítt áhorf á Skjá 1.
—————————————————————————————————————————————————————————————————–
September:
Dreifing er hafin um Android TV app sem hægt er að nálgast á Google Play store, en appið er fyrir nettengd sjónvarpstæki sem keyra á Android TV stýrikerfi önnur en WEB OS & Samsung Tizen sem kunna að verða í boði síðar.
Ný dreifing um ÖPP í Ágúst – 2024
Dreifing er nú hafin um ANDROID síma & spjaldtölvur á Google Play Store.
Dreifing er hafin um „ÖPP“ fyrir Apple IOS síma, spjaldtölvur og Appel TV box. Eingöngu er hægt að sækja þau á EU App store. (EKKI USA) Vinsamlegast athugið að það sé uppfært stýrikerfi sem hér segir:
Apple TV – tvOS 16.0 eða nýrra
iPhone – IOS 12.0 eða nýrra.
iPod touch – IOS 12.0 eða nýrra
Mac – macOS 11.0 eða nýrra og MAC með Apple M1 eða nýrra.
Apple Vision: – visionOS 1.0 eða nýrra.
Maí – 2024
Dreifing er hafin á sjónvarpsmerki okkar á dreifikerfi Kapalvæðingar á Suðurnesjum.